Virkjanir

Úr Ásta
Útgáfa frá 17. mars 2018 kl. 10:46 eftir Salvor (Spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Núverandi útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Stökkva á: flakk, leita


Fossafélögin (Tíminn 28. maí 1919)

Eins og eðlilegt er, þykir mönnum miklu skifta um það hverir eru orðnir umráðamenn helstu fossanna hér á landi. En það eru erlend félög og hafa sum þeirra starfað alllengi að því að leggja undir sig vatnsafl landsins. Einna elst af félögum þessum mun vera »ísland«, og hálfbróðir þess »Skjálfandi«. Það hefir umráð yfir Soginu, Gullfossi og Brúarfossum í Laxá úr Mývatni. Enn fremur Eldeyjarfossi, Barnafossi, Ullarfossi og 3/4 hlutum af Goðafossi. Eru allir þessir síðastnefndu fossar í Skjálfandafljóti. Talið er að í þessu félagi séu margir mestu auðmenn í Danmörku, og standa sumir þeirra framarlega í afturhaldsflokknum þar í landi.

Mun félag þetta geta ráðið yfir miklu fjármagni, en lítið hefir á það reynt enn þá, því að hvorki hefir það látið gera verulegar mælingar, né lagt í annan kostnað, því að varla er teljandi eyðsla félagsins við kaup og leigu á fallvötnum þessum, því að svo má kalla, að félagið hafi fengið eignir þessar gefins. T. d. má taka það, að í leigu af Soginu, sem talið er hentugast fallvatn til virkjunar hér á landi, borgar félagið ekki meira í árlega rentu, heldur en nú þarf að gjalda af lélegri tveggja íbúða húseign í Reykjavík.

Annað stórfélagið nefnist »Titan.« Það hefir að kalla má keypt alla Þjórsá milli fjalls og fjöru, og lönd til að breyta farvegi hennar, þar sem þurfa þykir. Hefir félagið lagt allmikið fram fyrir þessi réttindi, og til að rannsaka gildi árinnar til iðnreksturs. — Norskir menn standa fyrir »Titan«. Bæði hafa félög þessi sótt um leyfi til að reka hér stóriðju. Vill »ísland« nota Sogið, en »Titan« fossa í Þjórsá. Til að fullnægja íslenskum lögum munu bæði þessi félög telja sig hafa meiri hluta stjórnár sinnar íslenska borgara og búsetta hér á landi. Eru með þessum hætti allmargir málsmetandi menn úr báðum gömlu stjórnmálaflokkunum tengdir félögum þessum. En vitanlega felst engin trygging í þvi fyrir landið, því að í hlutafélagi ræður ýjármagnið, og það er í félögum þessum því nær alt eign útlendinga. Yfirleitt eru lögin um búsetu stjórnenda í slíkum félögum, ljós vottur þess, að löggjafarnir hafa ekki skilið nema formshlið málsins.

Þriðja félagið heitir »Sleipnir«. Það telur sig eiga Hvítárvatn og Hvítá mestalla (að Gufufossi frátöldum) niður fyrir Hestfjall. — Tilætlun félagsins er að veita Hvítá úr farvegi sínum í stöðuvatn eitt, vestanvert við Hestfjall, og skapa síðan foss milli vatnsins og aðalfarvegsins. Segja það sumir þeir menn, er vit þykjast hafa á þessum málum, að aðstaðan sé þar einkar góð, og standi eigi mikið að baki Soginu, hvað orku snertir og legu. »Sleipnir« hefir lagt fram mikið fé fyrir sín réttindi. Stofnendur félagsins voru þeir Gestur heitinn á Hæli, Elías Stefánsson útgerðarmaður og Copland kaupmaður. Tilgangur þeirra var að koma upp stóriðju við Hvítá, undir erlendri stjórn.

Fjórða félagið heitir »Gigant« og þykist það ráða yfir fossunum í Jökulsá á Fjöllum. Fremur mun félag þetta vera loftkent og er varla búist við, að það komi við sögu, að svo stöddu. Fimti iðnrekandinn, sem til mála hefir komið eru Samvinnufélögin dönska; eða sú deild þeirra, sem fæst við að kaupa tilbúinn áburð handa bændum. Einn islenskur búfræðingur hefir unnið að því árum saman, að fá félag þetta til að virkja »Lagarfoss« eystra. — Hvað honum hefir orðið ágengt, skal látið ósagt. Engin beiðni um sérleyfi hefir komið frá félagi þessu, og engar mælingar eða rannsóknir hefir það látið gera, sem teljandi eru. En hitt er vafalaust, að ef félagið vill, hefir það meir en nóg fjárráð, til að framkvæma verkið.

Eins og sjá má af þessu yfirliti, eru aflmestu vatnföll landsins komin undir yfirráð erlendra félaga. Þetta er vitanlega handvömm hin mesta og þjóðarhneisa. Bæði einstakir menn og landstjórnin hafa síðan um aldamót selt og afhent vatnsréttindi eins og sá, sem ekki veit hvað hann gerði. En því miður er afhending þessi lögleg, og væri þjóðfélagið ekki að bættara, þótt það eyddi stórfé í að tapa málum út af vatnsréttinum, bæði við fossafélögin og landeigendur hér á landi, ofan á þau glappaskot, sem áður er búið að gera í málinu. En sú myndi þó verða raunin á, ef landið ætlaði að taka alt vatnsafl landsins, án þess að endurgjald kæmi fyrir. Tveir vegir eru til að ná aftur í verki hinum týndu yfirráðum*. Annað er fossaskattur, og hefir sú hlið margsinnis verið skýrð í þessu blaði. Aðferðin væri þá sú, að leggja mjög háan skatt á vatnsorku, sem búið er að selja eða leigja undan jörð. — Undanþegnir skatti væru þeir umráðamenn slíks vatnsafls, sem settu mikla fjárhœð að veði fyrir því, að þeir vildu »virkja« sína fossa, þegar þjóðfélaginu þætti hent, að veita þeim leyfi. Öll þau félög, sem eru á báðum áttum, eða eru »loftkend«, myndu neita eða ekki geta sett veð. Ekki heldur geta greitt skattinn til lengdar, og væri þá vatnseign þeirra sjálffallin til landsins.

Munurinn á þessari aðferð og hinu svonefnda »vatnsráni« er það, að skattaðferðin er bygð á löglegum grundvelli, kæmi hart niður á fossabrasksmönnum og humbugsfélagaforkólfum, en léti i friði alla bæjalækjaeigendur, og aðra þá umráðamenn vatnsorku, sem ekki hafa af sér brotið við þjóðfélagið.

En jafnvel þó að eigi verði horfið að fossaskatti, þá er eftir sú leiðin, að ráða yfir auðfélögum þeim, sem nota kunna fossana, með hörðum sérleyfislögum. Fossaflið er fyrir auðmagnið eins og tvílœst hurð, þar sem tveir óviðkomandi aðilar geyma hvor sinn lykil. Annar lykillinn er eignarréttur að vatnsorkunni. Þeim lyklinum hafa fossalögin náð. En hinn lykillinn er leyfi þjóðfélagsins til að nota vatnsorkuna. Þar er valdið í höndum kjósenda og síðan þings og stjórnar.

Engum auðmanni eða auðfélagi mun koma til hugar, að virkja foss hér á landi, hvað sem eignaryfirráðum liður, nema með því, að tryggja rétt sinn samningslega gagnvart þjófélaginu. Þess vegna má enn bjarga málinu við. Síðari lykilinn má ekki afbenda neinu fossafélagi, nema með þeim skilyrðum, sem tryggja hag almennings í bráð og lengd. Þetta hefir Sveinn Ólafsson viljað gera með sínum sérleyfislögum. Þau eru heilsusamlega ströng. Stóra virkjun má aldrei leyfa nema með samþykki tveggja þinga, og hafi kosningar farið fram þess á milli. Þar með á að vera girt fyrir, að seiðmagn peninganna geti dregið öryggisvaldið óvörum úr höndum þjóðarinnar.

Félögin eiga að ganga fullkomlega undir íslensk lög, enga ívilnun að fá um skatta og skyldur. Gjalda enn fremur sérstakan »vatnsskatt« til Iandssjóðs, selja héruðum og bæjarfélögum ódýra raforku, samkvæmt samningi. Og að síðustu fellur mannvirkið alt endurgjaldslaust til landsins eftir ákveðið árabil.

Sumir af þjónum »vatnsræningja« hafa látið sér sæma, að drótta því að Sveini Ólafssyni, að hann væri meiri vinur fossafélaganna en landsins. Tillögur hans eru besta vitnið í því máli. Þær eru harðdrægar i garð félaganna, en þó réttlátar. Og enginn af samverkamönnum hans er liklegur til að setja félögunum jafnharða kosti og þó svo sanngjarna, að enginn getur fráfælst þá, sem alvara er að vilja starfa hér, sér til hagsbóta,og þjóðfélaginu að meinalausu. En eins og málunum er nú varið, er mest undir því komið, að vel sé gætt siðari lykilsins. J. J.

Tenglar
Nafnrými
Útgáfur
Aðgerðir
Flakk
Verkfæri