Wikipediagreinar

Úr Ásta
Stökkva á: flakk, leita

Hérinn og skjaldbakan, ævintýri Esops, teiknari Arthur Rackham

Einu sinni var héri, sem alltaf var að raupa af því, hvað hann væri fljótur að hlaupa. "Enginn í öllum skóginum er eins fljótur að hlaupa og ég," sagði hérinn, spígsporaði fram og aftur og var alveg að springa af monti. "Hver vill reyna sig við mig?" Hin dýrin voru alveg uppgefin að hlusta á þetta bannsett raup, en ekkert þeirra þorði þó að fara í kapphlaup við hann. En allt í einu sagði ósköp hæglát skjaldbaka: — Ég skal fara í kapphlaup við þig. Hérinn skellihló, en hin dýrin litu skelkuð á skjaldbökuna, því að allir vissu, að hún var síst þeirra allra til hlaupanna. "Ha, ha, ha," skellihló hérinn. "Þetta er svei mér hlægilegt. Ég er næstum því búinn að sigra fyrirfram." "Vertu ekki svona grobbinn fyrr en þú ert búinn að vinna," sagði skjaldbakan ósköp rólega. Kapphlaupið var svo ákveðið á vissum tíma. Þá voru öll dýrin saman komin til þess að horfa á, þegar keppinautarnir færu á stað. Hérinn þaut af stað með feikna hraða og skjaldbakan varð strax langt á eftir. Að stundarkorni liðnu leit hérinn aftur fyrir sig og sá skjaldbökuna hvergi. Hann ákvað því að leggja sig út af í forsælunni undir tré nokkru, sem stóð við vegarbrúnina og bíða þar skjaldbökunnar, til þess að endaspretturinn yrði sem tilkomumestur. En brátt tók hann að syfja og ákvað því að blunda svo sem tvær mínútur. En það teygðist furðanlega úr þessum tveimur mínútum og allt af svaf hérinn í forsælunni undir trénu. En það er af skjaldbökunni að segja, að hún hélt stöðugt áfram eftir rykugum veginum. Að vísu var hún hægfara, en áfram miðaði jafnt og þétt. Eftir alllanga stund kom hún að héranum, þar sem hann svaf við veginn. Skjaldbakan skreið hljóðlega fram hjá til þess að vekja ekki keppinaut sinn og hélt síðan áleiðis. Þegar svo hérinn vaknaði, seint og síðar meir, sá hann, að skjaldbakan var að skríða i markið, sem var alllangt framundan, en öll dýrin voru þar saman komin og hrópuðu ferfalt húrra fyrir skjaldbökunni. Hérinn hafði tapað í kapphlaupinu, af því að hann var svo viss um sigurinn og upp með sér. Nú hafði hann ekkert til að gorta af framar og það þótti hinum dýrunum sannarlega vænt um.

Tenglar
Nafnrými
Útgáfur
Aðgerðir
Flakk
Verkfæri